Vesturfarinn   -     

 Brott frá Almanak 1900, bl.28-40

  Eftir Árna Gudmundsen

 

  Landnám Íslendinga á Washington-eyjunni

 

    -  Íslenskur útflutningur byrjar.  island map
 Kort af Washington-eyjunni
Stæka kortið

      Árið 1870, þann 12. dag maímánaðar, fóru af Eyrarbakka þrír ungir menn til Vesturheims, voru þeir: Jón Gíslason, Guðmundur Guðmundsson og Árni Guðmundsson; en Jón Einarsson bættist við hópinn í Reykjavík. Hinn fyrst nefndi var forsprakkinn, og lánaði hann hinum tveimur síðast nefndu fé til fararinnar, en Guðmundur fór upp á sínar eigin spítur....

 

    -  Landnámið á Washington-ey.

      Washington Island (Indíánar kölluðu eyna Pottavatomie) liggur á 45° 20' n. br. og 86° 50' vesturl., í norðvestur enda Michigan-vatns, hér um bil 7 mílur norður af Door County-skaganum. Heitir sund það sem adskilur eyna frá meginlandinu "Deaths Door" (Port la Mort) og sameinar Michigan-vatnið við Grænaflóa (Green Bay). Að austan er því Michigan-vatnið, en að vestan or norðan Græniflói. Eyjan er hér um bil 7 mílur þar sem hún er lengst, en 5 mílur þar sem hún er breiðust, eða nálægt því. Að stærð er hún hér um bil 28 ferhyrnings mílur (sections). Nokkrar minni eyjar liggja í kringum hana, að norðan Rock Island, en að sunnan Detroit, Plum og Pilot. Á 3 þeirra eru vitar (Light Houses), og á Plum einnig björgunarstöð (Life Saving Station). Allar eyjarnar gera hér um bil fult township að stærð.

      Skrá yfir landnámsmenn á Washington-eyjunni frá 1870 til þessa dags.  - Við þá sem eru þar enn er engin athugasemd gerð:


1870.
Jón Gíslason, Guðmundur Guðmundsson og Árni Guðmundsson.

1871.
Kom Einar Bjarnason, kaupmaður úr Reykjavík með elsta son og elstu dóttir sína, en kona hans kom með hin börnin 2 árum síðar. Hann flutti sig til Milwaukee 1873, en kom hingað aftur 1882. Hann dó 3. desember 1895, 71 árs gamall. Ekkja hans og 4 börn eru hér á eynni.

Sama ár.
Jóhannes Magnússon frá Langekru í Rangárvallasýslu, með konu. Jóhannes dó í Lincoln Co. í Minnesota, árið 1898, en ekkja hans er hér.

1872.
Fóru 14 manns af Eyrarbakka; af þeim lentu flestir á eynni. Þrjár persónur af þeim eru hér enn: Ólafur Hannesson, sonur Hannesar Sigurðssonar og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur á Litluháeyri á Eyrarbakka; Árni Guðmundsen, sem lengi var sýslumaður í Árnessýslu, og konu hans Jóhönnu A. Knudsen; og Guðrún Ingvarsdóttir, sem giftist Guðm. Guðmundssyni... Hinir aðrir, sem lentu hér úr þessum hóp, voru: séra Hans Thorgrimsen; Dr. Árnabjarni Sveinbjörnsson, Þorkell Árnason frá Eiði á Seltjarnanesi; og Ólafur Guðmundsson, frá Arnarbæli. Þessir fóru héðan aftur eftir lengri eða skemri dvöl.

1873.
Pétur Gunnlaugsson; hann kom af Jökuldali í N.-Múlasýslu, sonur Gunnlaugs Jónssonar og fyrri konu hans Maríu Einarsdóttur frá Brú á Jökuldal. Er Pétur og þeir bræður komnir í 12. lið af Þorsteini Jökul, sem flúði undan svartadauða upp í Dyngju á Arnardal, hvar hann dvaldi í nokkur ár; en þegar karl loksins vogaði sér niður í bygð aftur, var sveitin mannlaus. Nam hann þá Brú á Jökuldal, og skyldi jörðin taka yfir 1 1/2 Þingmannaleið á hvern veg.

Sama ár.
Teitur Teitsson, hafnsögumaður af Eyrarbakka; var faðir hans Teitur Helgason, einnig hsm. á Eyrarbakka. Hann fór héðan alfarinn 1887, og mun nú eiga heima í Manitoba.

1874.
Oddur Magnússon, af Jökuldal, sonur Magnúsar Jakobssonar, og var móðir hans Björg Þorsteinsdóttir. Hann kom frá Íslandi til Milwaukee 1873.

1881.
Jón Gunnlaugsson, bróðir Péturs, sem áður er nefndur. Lenti hann í Nýja Íslandi 1876, lá þar í bólunni í 5 vikur. Þaðan fór hann til Pembina County í N.-Dakota.

Sama ár.
Björn Verharðsson, ættaður af Eyrarbakka. Kom frá Íslandi til Milwaukee 1873; var þar þar til hann kom til eyjarinnar. Hann er föðurbróðir Björns kaupmanns Kristjánssonar í Reykjavík. Segist Björn vera kominn í beinan ættlegg í móðurætt af Þangbrandi biskupi, en í föðurætt af Agli Skallagrímssyni.

1884.
Hannes Jónsson af Eyrarbakka, sonur Jóns Jónssonar á Skúmstöðum í Rangárv.sýslu, og konu hans Ragnhildar Verharðsdóttir.

Sama ár.
Jón Jónsson frá Skálabrekku í Þingvallasveit, sonur Jóns Daníelssonar, sem lengi bjó að Ásbúð við Hafnarfjörð, tóuskyttunnar góðu. Afi Jóns var bróðir Ófeigs ríka á Fjalli Vigfússonar, sem margir munu kannast við, þótt ekki sé nema úr "Heljarslóðarorustu".

Sama ár.
Sigurður Sigurðsson af Eyrarbakka, ættaður frá Skammadal í Mýrdal.

1885.
Þórður læknir Guðmundsen, bróðir Árna, sem áður er nefndur - Kom 13. ágúst það ár. Hann dó snögglega 29. janúar 1899.

1886.
Magnús Jónsson Þórhallasonar, af Eyrarbakka, en móðir Magnúsar var Þórunn Gísladóttir frá Gröf í V.-Skaftafelssýslu.

1887.
Jón Þórhallason, trésmiður, faðir Magnúsar, af Eyrarbakka. Jón er ættaður frá Mörk á Síðu, sonur Þórhalla Runólfssonar, sem lengi bjó þar.

Sama ár.
Kristófer Einarsson, frá Steig í Mýrdal.

Sama ár.
Bárður Nikulásson, Bárðarsonar Jónssonar, af Eyrarbakka, ættaður úr Skaftártungu: var móðir hans Sigríður Sigurðardóttir, frá Hvammi, Árnasonar frá Hrísnesi.

Sama ár.
Gísli Mattíasson, ættaður frá Miðfelli í Hrunam.hrepp í Árnessýslu; fór frá Litlu Reykjum í Flóa.

1888.
Þorgeir Einarsson, ættaður af Eyrarbakka. Kom til Milwaukee 1873, en dvaldi í Racine og Walworth Counties í 15 ár. Faðir hans, Einar Vigfússon, kom með honum og er hjá honum enn.

Sama ár.
Sigurður Jónsson, Árnasonar Magnússonar Beinteinssonar, ættaður úr Þórlákshöfn. Móðir hans er Þórunn Sigurðardóttir frá Skúmstöðum í Landeyjum, og eru því foreldrar hans bræðrabörn. Kom til Minneapolis frá Kaupmannahöfn 1885.

1895.
Ólafur Einarsson frá Steig í Mýrdal, bróðir Kristófers, sem getið er áður.

        Af þeim 20 landnámsmönnum, sem að ofan eru taldir og nú eru á eynni, lifa 14 mestmegnis af landbúnaði, 2 sumpart af fiskiveiðum, 1 er kaupmaður, 1 siglir á skipi sínu og verslar á sumrum, og 2 eru járnsmiðir. Sumir þeirra hafa líka opinber störf á hendi, og hafa haft um mörg undanfarin ár.


Ef þú vilt meira upplýsingar um Íslensk byggðar að vestan, eða vesturfaraára 1870-1914, hafa samband við okkur: Vesturfarinn


Fara til baka á "Byggðarskráning", eða halda áfram að skoða:
  Byggðarskráning  
Vesturfaramyndasafn Ísland á 19 öld Vesturfarar
Jökuldalsheiðin og byggðin þar Minnesotabyggð Bréf frá Dagverðagerði