Vesturfarinn   -     


Heimild: "Saga Íslendingar í Vesturheimi" V. bindi
Rithöfundur: Guðni Júlíus Oleson. Ritstjóri: Tryggvi J. Oleson, Dr. Phil. Reykjavík, 1953, Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

 

 

Minnesota-nýlendan

 

Landnám Nýja Íslands byrjaði 1875, og sama ár lögðu fyrstu Íslensku landnemenarnir grunninn að íslendingabyggð í Minnesota þegar að íslensk fjölskylda tók land nálægt Yellow Medicine á í Lyonsýsla eftir hún hafði farið 500 mílna leið á sínum uxum frá Wisconsinfylki. Í kjölfar þessarar fjölskyldu komu standlaust straumur af fólki frá Íslandi, og innan við tvö til þrju ár var land í Austurbyggð (Westerheim og Yellow Medicine svæði) numið og fljótlega áfram vestur í Lincolnsýsla.

 

Fyrsti landnámsmaðurinn


Maður er nefndur Gunnlaugur Pétursson, fæddur á Hákonarstöðum á Jökuldal 10. sept.1830. Höfðu forfeður hans búið á Hákonarstöðum mann fram af manni í marga mannsaldra, að sagt er í níu eða tíu liði. Tuttugu og sjö ára kvæntist Gunnlaugur Guðbjörgu Jónsdóttur Einarssonar og Guðnýjar Sigfúsdóttur, sem bjuggu í Snjóholti. Gunnlaugur tók um þær mundir við Hákonarstaðabúinu af föður sínum og bjó þar rausnarbúi, unz hann fluttist til Vesturheims 1873, þá allnokkuð hniginn að aldri. Var hann með allra fyrstu Íslendingum, er fluttust af Austurlandi vestur í hinn nýja heim. Er talið, að hann hafi haft þó nokkur efni. Gunnlaugur fluttist til Wisconsinríkis í Bandaríkjunum og var þar í 2 ár eða þar um bil. Voru Norðmenn allfjölmennir þar, og margir úr þeirra hóp voru á vesturleið. Þá voru að opnast fyrir almenningi miklar lendur og fríðar í vesturhluta Minnesotaríkis. Þangað var ferðinni heitið, og með þeim straumi fylgdist Gunnlaugur í maí 1875. Ók hann á vagni, er uxum var beitt fyrir, og flutti þar með búslóð sína. Voru það um 500 mílur vegar. Eftir 3 vikna ferð náði hann til Lyon County, og nam hann staðar á bakka Yellow Medicine-árinnar og nam þar land. Nefndi hann bæ sinn Hákonarstaði. Hann var fyrsti Íslendingur, er festi byggð og land nam í Minnesotaríki. Bjó hann í Lyon County blómabúi til dauðadags. Kona hans dó 1898, en Gunnlaugur féll frá 4. maí 1909.

Íslendingar í Minnesota minntust fimmtíu ára afmælis íslenzku byggðarinnar með veglegri hátíð á Hákonarstöðum 23. ágúst 1925, og var Gunnlaugs Péturssonar og konu hans sérstaklega minnzt sem fyrstu frumherja. Var hátíðin haldin í fögrum skógarlundi, er Gunnlaugur hafði ræktað. Þar voru oft haldnar sumarsamkomur framan of árum. Var þessi afmælishátíð sótt af öllum þorra Minnesota-Íslendinga, og þar var einnig allmargt af hérlendu fólki. Samkoman hófst með sálmasöng og bænagerð, og prestur byggðarinnar, séra Guttormur Guttormsson, flutti stutta ræðu andlegs efnis. Þingmaður Lyon County, Jón Gíslason, stýrði skemmtiskrá. Þeir frumherjarnir P. V. Peterson (úr Lincoln County) og Sigbjörn S. Hofteig (Lyon County) fluttu erindi og sögðu nokkuð frá frumherjalífinu, hvor frá sínu héraði. Einnig fluttu þessir menn ræður: Jón Gíslason þingmaður (sonur Björns Gíslasonar frá Grímsstöðum á Fjöllum), Sigurður H. Peterson prófessor frá Cornvallis í Oregon, frumherjasonur úr Vesturheimsbyggð, Mrs. J. A. Josephson (Guðný Hofteig), Björn B. Gíslason lögmaður og Gunnar B. Björnson ritstjóri. María G. Árnason skáldkona (systir Þorsteins Oddssonar fasteignasala í Winnipeg) lutti frumsamið kvæði, og Jón Runólfsson skáld las gamalt kvæði frumsamið. Jón var oft langdvölum í íslenzku Minnesota-byggðunum. Kristine Gunnlaugsson, Dora Askdal og Marjorie Kompelien sungu einsöngva, allar lifandi kvistir á gömlum frumherjastofni. Marjorie Kompelien söng þjóðsönginn "Ó, guð vors lands". Var hún klædd íslenzkum faldbúningi. Fleiri voru þar, sem sungu, auk sameiginlegs söngflokks byggðanna.

 

Nokkrir elztu landnámsmenn


.... Eins og sagt er frá hér að framan, var Gunnlaugur Pétursson frá Hákonarstöðum á Jökuldal fyrsti Íslendingur, sem land nam í Minnesota og tók sér þar bólfestu 1875. Í landnámssöguþætti Íslendinga í Minnesota í Alm. Ó.S.Th. árið 1900 eru taldir þeir helztu af frumbyggjunum, sem komu þangað fyrstu árin, og skulu þeir nefndir hér: 1876: Sigmundur Jónatansson úr Þingeyjarsýslu, Guðmundur Henry Guðmundsson ættaður úr Dalasýslu, Eiríkur H. Bergman, Kristinn Ólafsson og Arngrímur Jónsson frá Galtastöðum í Norður-Múlasýslu. 1877: Halldóra Jónsdóttir, ekkja með 2 syni sína, Snorri Högnason frá Ósi í Breiðdal í Suður-Múlasýslu og Jónatan Jónatansson frá Eiðum í Suður-Múlasýslu, Jón Kristjánsson frá Gröf í Eiðaþinghá og Guðmundur Pétursson frá Langhúsum í Fljótsdal. 1878: Jósef Jósefsson frá Haugsstöðum í Vopnafirði, Sigbjörn Sigurðsson (Sigbjörn Sigurðsson Hofteig) frá Hofteigi á Jökuldal, Jón Arngrímsson, faðir Arngríms, er áður var nefndur, Þorsteinn Guðmundsson frá Felli í Vopnafirði, Guðlaugur Guðmundsson, ættaður úr Eyjafirði, Árni Jónsson úr Hjaltastaðaþinghá, Sigurður Jónsson úr Eyjafirði. Árni Sigvaldason, Stefán Sigurðsson, Jóhannes Magnússon og Magnús Gíslason. Allir þessir menn, sem komu 1878, nema Jósef Jósefsson og S. S. Hofteig, byggðu í Lincoln County, því að hinir höfðu numið land allt í Lyon County. Þetta sama ár er getið þess, að 7 fjölskyldur ónafngreindar frá Vopnafirði hafi komið og setzt að í Lincoln County í ágústmánuði. 1879: Björn Gíslason frá Haugsstöðum í Vopnafirði (keypti land í Lyon County).

 

  Ef að þú vilt fá nánari upplýsingar um landnám í Minnesota eða um tímabilið 1870-1914 hafa samband á:  Vesturfarinn


Fara til baka á "Heim", eða halda áfram að skoða:
  Heim  
Vesturfaramyndasafn Ísland á 19 öld Vesturfarar
Jökuldalsheiðin og byggðin þar Byggðarskráning Bréf frá Dagverðagerði