Vesturfarinn   -     


(Heimild: Austurland I, 1947)


Jökuldalsheiðin og byggðin þar


by Halldór Stefánsson


old farm1. Háreksstaðir

Fyrsta landnámsbýlið var... Háreksstaðir í Norður-heiðinni. Má ætla að fyrsta býlið hafi verið valið og sett á þann stað, sem álitlegast þótti til bjargræðis. Vera má og, að fyrsta býlið hafi verið þar sett af því, að kunnugt hafði verið um, að þar hafi verið búið fyrr á tímum. Hvað sem um þetta hefur verið, þá voru Háreksstaðir jafnan taldir eitt bezta býlið í Heiðinni og fjölsetnasta, enda var graslendið þar hvað samfelldast og víðáttumest.

Frumbyggjar á Háreksstöðum voru Jón Sölvason (f. 8. júlí 1803) bónda á Víkingsstöðum í Skógum, Bessasonar og kona hans Katrín Þorleifsdóttir (f. 1. september 1809) Þorleifssonar frá Stóru-Breiðuvík í Reyðarfirði. Þau fluttist að Háreksstöðum og byggðu þar bæ sinn vorið 1841. Undanfarið höfðu þau búið á ýmsum bæjum á Fljótsdalshéraði, Ási í Fellum - og þar giftust þau vorið 1831 - Hafursá í Skógum, Skeggjastöðum í Fellum og Eiðum. Hefur búfesta þeirra sýnilega verið lausleg, er þau höfðu búið á fjórum jörðum á aðeins tíu árum. Frá Eiðum fluttust þau með dætur sínar þrjár og tvö vistráðin hjú. Að Jón Sölvason hafi verið maður vel að sér gjör, má ráða af því, að hann var um tíma hreppstjóri Jökuldalshrepps áður en Kristján Kroyer á Hvanná (sem á þeim tíma var nefnd Hvammá) tók við hreppstjórn.

Jón Sölvason bjó á Háreksstöðum allt til banadægurs, 16. marz 1864, og Katrín, ekkja hans dvaldi þar nokkur ár eftir hans dag hjá dætrum sínum og tengdasonum, sem síðar verður nánar greint.

Á fyrstu búskaparárum sínum komst Jón Sölvason í málaferli um eignarrétt ábýlisjarðar sinnar.

Með Jóni Sölvasyni fluttist að Háreksstöðum, frá Eiðum einnig, Sólveig (f. 4. marz 1806) Eiríksdóttir og fékk þar húsmennskuábúð.

Sólveig var dóttir Eiríks bónda á Arnaldsstöðum í Fljótsdal, Eiríkssonar. Hún hafði gifzt í Víðivallagerð árið 1826 Pétri (f. 1796) Bjarnasyni, Péturssonar frá Norðurkoti í Andakílshreppi. Bjuggu þau þar til ársins 1831, og þar fæddust synir þeirra, Vigfús (1829) og Páll (1830). Frá Víðivallagerði fluttust þau að Eiðum og þaðan (1835), að Stórabakka, þá að Fljótsbakka (1837). Þar skildu þau samvistir sínar árið 1840, Pétur fluttist suður til átthaga sinna í Borgarfjarðarsýslu, Sólveig fór í húsmennskuvist að Eiðum aftur með þrjú börn þeirra, en synir þeirra, Vigfús og Páll fóru í vistir. Síðar fluttust þeir að Háreksstöðum til móðir sinnar.

Aftur kom Pétur austur eftir allmörg ár, en ekki tóku þau Sólveig upp samvistir. Varð hann þá og brátt sekur um hjúskaparbrot; sótti Sólveig hann þá til skilnaðar og fékk honum framgegnt með dómi.

Benedikt sonur Sólveigar og Péturs og eitthvað af börnum Vigfúsar sonar þeirra fluttust síðar til Vesturheims.

Þegar frá leið giftust saman börn þeirra Jóns og Sólveigar. Vigfús kvæntist Önnu Sigríði (f. 1831) Jónsdóttur 14. september 1851, en Páll Pétursson Vilhelminu Friðrikku (f. 1833) Jónsdóttur 17. september þrem árum síðar. Bjuggu þá nokkur næstu árin þessar fjórar fjölskyldur sjálfstætt á Háreksstöðum. Eftir nokkur ár fluttist Vigfús með sína fjöskyldu burt frá Háreksstöðum, en þangað kom þá aftur í húsmennsku Jón Stefánsson og Guðrún L. Þórðardóttir, er frumbyggjar höfðu verið á Hlíðarenda.

Tveim árum eftir lát Jóns Sölvasonar andaðist Páll maður Vilhelmínu (11. febrúar 1866). Vilhelmína bjó þá áfram með börn þeirra þar til er hún giftist aftur (12. október 1867) Birni Ánasyni áður bónda á Hálsi í Heiðinni, sem annars staðar getur, en hann dó eftir mjög stutta sambúð. Bjó Vilhelmína þá enn áfram á Háreksstöðum til vors 1869 og flutti þá með bórn sín, ásamt móðir sinni, suður á Berufjarðarströnd. Sólveig Eiríksdóttir var þá orðin ein eftir af frumbyggjunum og bjó þá að síðustu í einbýli til vors 1871. Fluttist hún þá til næsta heiðarbýlisins, Mels og getur hennar síðar.


2. Sænautasel

turf house Sænautasel var næsta býlið, sem numið var í Heiðinni. Það var numið vorið 1843, tveim árum síðar en Háreksstaðir.

Frumbyggjar á Sænautaseli voru Sigurður (f. 22. maí 1805) Einarsson, bónda á Brú (í bæjartali Jökulsdals um þær mundir nefnt Brún) og Kristrún (f. 1818) Bjarnadóttir, bónda á Staffelli í Fellum, Jónssonar. Þau höfðu þá gifzt fyrir tveim árum (25. september 1841) og búið á Brú þar til er nýbýlið var reist, ásamt föður Jóns og tveim bræðrum, Einari og Þorsteini. Hefur jörðin sýnilega þótt þröngsetin, þótt víðlend sé, hvergi í grennd verið laust fyrir um ábúð, og valinn þá kostur, að reisa nýbýli í hinni grösugu og gagnsömu heiði, til að leysa úr þröngbýlinu á Brú.

Að nýbýlalandið var valið í Hákonarstaðalandi, en ekki Brúar, þar sem þó voru byggð tvö nýbýli síðar, og auk þess sagnir um byggð áður fyrr í dölunum inn frá Brú, og kunnugt um a. m. k. tvö eyðibýlýi í heiðarlandi jarðarinnar (Múlasel og Netsel), bendir til, að byggilegast hafi verið álitið á Sænautaseli, líklega fyrst og fremst vegna veiðinnar í vatninu, enda graslendi þar nægt og flóaengi.

Sigurður og Kristrún bjuggu á Sænautaseli í sjö ár; þá dó Sigurður (18. marz 1850) en Kristrún fluttist, með eitt barn þeirra, til foreldra sinna að Staffelli.


3. Rangárlón

Rangárlón byggðist 1844 við norðurenda Sænautavatnsins, ári síðar en Sænautasel við suðurendann. Líklegt má teljast að vali býlisstæðisins hafa ráðið sömu ástæður sem á Sænautaseli; að nokkru leyti mun og hafa rðið, að býlið var við alfaraleið yfir heiðina og bæir komnir á báðar hendur, þótt löng leið væri að vísu til Háreksstaða. Landið taldist þá til Möðrudalslands og hafa því Sigurður og Metúsalem bændur í Möðrudal veitt byggðarleyfið.

Frumbyggjar á Rangárlóni voru Pétur (f. 1797) Guðmundsson og Þorgerður (f. 1817) Bjarnadóttir. Pétur var sonur Sögu-Guðmundar Magnússonar á Bessastöðum, en Þorgerður var systir Kristrúnar á Sænautaseli. Gifzt höfðu þau árið áður (20. júní 1843) á Brunahvammi í Vopnafirði, en undanfarin ár verið á vistum sitt í hvoru lagi austur á Héraði, en þó líklega verið búin að ráða með sér hjúskap sinn, því að átt höfðu þau saman fyrsta barn sitt fjórum árum áður en þau giftust, hún þá heimasæta í foreldragarði en hann á vist á næsta bæ. Virðist það þá hafa verið fyrst og fremst bújörð, sem á stóð, og þegar Jökuldalsheiðin tók að byggjast opnuðust hinar lokuðu dyr sem töfrahellirinn Sesem. Pétur hafði verið kvæntur áður Ólöfu Pétursdóttur frá Hákonarstöðum, en hún var dáin nokkru fyrr en þetta var. Þorgerður flutti úr foreldrahúsum að Brunahvammi vorið 1842 og Pétur einnig sama vorið austan af Héraði. Má ætla að þá þegar hafi verið ráðin búfestan í Heiðinni og þau hafi einmitt þess vegna flutt í grenndina, í þeim tilgangi að hafa nokkur skilyrði til að undirbúa nýbýlisstofnunina.

Pétur og Þorgerður bjuggu á Rangárlóni til banadægurs hans, 3. febrúar 1851. Þorgerður bjó þá áfram í fjögur ár, þar til er hún giftist aftur, 1. júlí 1855 ráðsmanni sínum, Guðmundi (f. 1818) Kolbeinssyni, ættuðum úr Reyðarfirði. Bjuggu þau þá áfram á Rangárlóni, þar til þau skildu samvistum (1867) og Guðmundur fór burt og vistaðist á Grunnavatni, er þá var komið í ábúð. Þorgerður bjó þá enn með tilsjá sona sinna af fyrra hjónabandi, Sigurði og Bjarna, þar til er Sigurður tók ábúðina 1873 og kvæntist samsumars Þorbjörgu Eiríksdóttur, Sigurðssonar, bónda á Ármótaseli. Eftir eitt ár flutti Sigurður með fjölskylduna að Lýtingsstöðum í Vopnafirði og þaðan til Vesturheims 1876 og einnig Bjarni bróðir hans.

Ábúðina eftir Sigurð fékk Kristján Friðfinnsson frá Sænautaseli.


4. Gestreiðarstaðir

Gestreiðarstaðabærin reis úr óbyggð sama árið og Rangárlón. Frumbyggjar þar voru Andrés (f. 1812) Andrésson, bónda í Hallfreðarstaðahjáleigu, Sturlusonar og Una (f. 1820) Jensdóttir, bónda á Hrjót, Árnasonar. Þau höfðu alist upp sumpart á vegum vandalausra, og dvalið í reikulum vistum eftir að þau komust til þroskaaldurs. Árið 1837 lágu leiðir þeirra saman á Skeggjastöðum á Jökuldal. Felldu þau hugi saman og áttu fyrsta barn sitt tveim árum síðar.

Úr vöndu var að ráða fyrir pilt og stúlku, sem felldu hugi saman, en voru bæði efnalaus og lítils megnug um að fá jarðnæði, hvort þau ættu samt eigi að síður að festa ráð sitt með hjúskap eða ekki. Erfiðara gat verið fyrir hjón að fá samastað með barn og væntanleg börn, en ef foreldrarnir væru í vistum, sitt í hvoru lagi. Ákvörðum um það varð að taka eftir ýmsum ástæðum. Er ekki unnt að meta þær löngu eftirá. En þann kost völdu þau, Andrés og Una, að stofna ekki til hjúskapar, fyrr en ef þau gætu þá jafnframt fengið búfestuskilyrði. Úrræðið til að fá jarðarábúð eygðu þau, þegar Jökuldalsheiðin tók að byggjast. Eini úrkosturinn var að stofna þar nýbýli. Til þess völdu þau Gestreiðarstaðadalinn. Þar hafa að líkindum verið einhverjar menjar fornrar byggðar, sbr. það sem um það er annars staðar sagt. Leyfið til nýbýlisstofnunarinnar hafa þau fengið hjá Möðrudælingum, Metúsalem og Sigurði, átölulaust þá af öðrum, enda voru Gestreiðarstaðir taldir til Möðrudals lengi eftir það og áttu þangað kirkjusókn. Vita má að þeim hefur verið erfið stofnun nýbýlisins, efnalitlum eins og þau voru, því að stuðningur varð þeim, fremur en öðrum nýbýlismönnum, enginn að nýbýlatilskipuninni frá 1776 um landnám og byggingu jarða. Engar heimildir er að finna um það nú, hvers stuðnings frumbyggjar Jökuldalsheiðarinnar hafa notið hjá landeigendum, en talið er að Möðrudalsbændur væru landsetum sínum löngum hjálpsamir.

Þegar þau Andrés og Una höfðu fest sér ábýli og voru sezt þar að, festu þau einnig ráð sitt með hjúskap samsumars (14. júí). Voru þá orðin tvö börn þeirra. Yfir tuttugu ár bjuggu þau búi sínu á Gestreiðarstöðum. Áttu þau margt barna og hafa sýnilega verið fátæk, því að börnin fóru frá þeim í vistir jafnóðum sem þau höfðu aldur til.

Una Jensdóttir dó 18. júlí 1866. - Eftir lát hennar undi Andrés ekki í Heiðinni. Næsta vor fluttist hann að Einarsstöðum í Vopnafirði, en þar undi hann ekki heldur og fluttist að Fögrukinn vorið 1868, og þar lézt hann með sviplegum hætti 20. desember sama ár. Sannleikurinn mun og hafa verið sá, að hann undi og unni Heiðinni, en hann undi ekki lífinu eftir missi konu sinnar.

Árin 1846-1847 voru í húsmennskuábúð á Gestreiðarstöðum Vigfús Jósepsson og Rósa Jónsdóttir síðar frumbyggjar á Víðihólum.

Heiðarbyggðin stóð nú óbreytt í þrjú árin næstu. Næstu tvö býlin, Veturhús og Víðihólar byggðust úr landi Hákonarstaða. Eigandi og ábúandi Hákonarstaða var þá Pétur varaþingmaður Pétursson og þeir fleiri bræður.


turf shed5. Veturhús.

Á Veturhúsum voru frumbyggjar Benjamín (f. 1799) Þorgrímsson, Suður-Þingeyingur að ætt, og Guðrún (f. 14. júní 1806) Gísladóttir, bónda á Arnórsstöðum á Jökuldal, Jónssonar. Þau höfðu gifzt á Arnórsstöðum 1825. Benjamín var þar ráðsmaður á búi föður hennar, er orðinn var allhrumur fyrir aldurs sakir. Bjuggu þau á Arnórsstöðum í tvíbýli við foreldra hennar til ársins 1834, fluttu þá búferlum að Skeggjastöðum í somu sveit, einnig í tvíbýli, og bjuggu þar fimm árin næstu. Þaðan fluttu þau að Bakkagerði í Jökulsárhlíð og bjuggu þar, þangað til þau reistu bæ sinn, þar sem þá hét á Barði í Hákonarstaðaheiðinni, en síðan Veturhús.

Aðeins sex ár varð ábúð þeirra á nýbýlinu. Vorið 1853 fluttu þau þaðan til Eskifjarðar. Eftir eitt ár fluttust þau aftur þaðan í húsmennsku að Hvanná og þaðan enn næsta ár að Víðihólum í sambýli við Vigfús Jósepsson, landnema þar, sem síðar verður sagt, og þar dó Benjamín 8. október um haustið. Guðrún bjó þá aðeins til næsta vors og dvaldist eftir það á vegum barna sinna, þar til er hún dó í Fögrukinn 17. apríl 1868 hjá Jóni syni sínum síðar bónda lengi á Háreksstöðum. Var búseta þeirra þannig árið óstöðug, hvað sem valdið hefur.


6. Víðihólar

Á Víðihólum voru landnemar 1847 Vigfús (f. 1790) Jósepsson frá Hömrum í Reykdælahreppi og Rósa (f. 1796) Jónsdóttir ættuð úr Öxnadal. Þau höfðu flutzt árið 1832 með dóttur sína Lilju frá Svíra í Hörgárdal til vistar að Hvanná. Höfðu þau dvalið í úmsum vistum á Jökuldal og í húsmennsku á Gestreiðarstöðum tvö síðustu árin áður en þau byggðu þá búi, er þau voru bæði orðin roskin húsfreyja á Hneflaseli. Þar lézt Rósa 8.desember 1860 en Vigfús (7. apríl) sex árum síðar.

Húsmennskuábúð með Vigfúsi hafði frá 1852 Jón Guðlaugsson síðar frumbyggi á Ármótaseli.

Um miðja öldina höfðu bætzt við í Heiðinni býlin Hneflasel í Eiríksstaðalandi og Melur í Skjöldólfsstaða- og Hofskirkjulandi.


7. Hneflasel

Á Hneflaseli var frumbyggi Oddur (f. 1798) Sæbjörnsson, ættaður af Jökuldal. Hann var maður ókvæntur og bjó með ráðskonu, Helgu (f. 1804) Guðmundsdóttur, ættaðri líka af Dalnum. Munu þau hafa búið saman ógift alla búskapartíð Odds á nýbýlinu og eftir það. Oddur hafði undanfarið lengi verið beitarhúsasmali á Eiríksstöðum, líklega á Hálsi, og fengist við refaveiðar í boga. Hefur hann þá og sennilega fengið að byggja upp býlið fyrir langa og trúaþjónustu. Búendur á Eiríksstöðum voru þá Gunnlaugur Þorkelsson og tengdasonur hans Jón Jónsson frá Möðrudal.

Oddur og Helga bjuggu á Hneflaseli til 1860, þá fluttist þau aftur að Eiríksstöðum og vistuðust þar til æviloka, en lögðu með sér eignir sínar (proventa). Þau lifðu bæði fram yfir 1878, því að þau fluttust bæði með húsmóður sinni, Guðrúnu Gunnlaugsdóttur, ekkju Jóns frá Möðrudal, að Fremrihlíð í Vopnafirð undan öskunni 1875 og þaðan aftur í Eiríksstaði 1878.


8. Melur

old farm Nýbýlið Melur var með vissu af frumbyggjanum stofnað sem eignarbýli í almenningi, en presturinn á Hofi í Vopnafirði gerði kröfu til landsins fyrir hönd Hofskirkju og varð því ekki á móti staðið, sem síðar segir.

Frumbyggjar og stofnendur býlisins á Mel (í upphafi Melum) 1848 voru Jón (f. 1807) Guðmundsson, Mývetningur að ætt og Steinunn (f. 20. október 1821) Torfadóttir frá Arnkelsgerði, Torfasonar. Þau höfðu verið á vist saman á Háreksstöðum og gifzt þar haustið 1847. Vantaði þau þá bújörð og tóku það ráðið að stofna sér nýbýli. Þau bjuggu á Mel til vors 1863 og fluttu þaðan út í Vopnafjörð. Jón dó sársnauður 10. október 1865.

Til ábúðar með sér á Mel tók Jón Guðmundsson árið 1851 þingeyskan mann, Jón Guðlaugsson (f. 1810) kvæntan Guðrúnu Þorsteinsdóttur ættaðri af Fljótsdalshéraði. Þau fóru þaðan aftur eftir fá ár að Sænautaseli í sambýli við Guðmund Kolbeinsson og Þorgerði. - Þaðan fluttu þau vorið 1860 að Hvammsgerði í Vopnafirð.

Innan næsta fimm ára, þ. e. árið 1855, voru komin fjögur býli til viðbótar í Heiðinna: Ármótasel, Fagrakinn, Grunnavatn og Hlíðarendi. Þau voru öll í Norðurheiðinni nema Grunnavatn. Staðsetningu þeirra er áður lýst.


9. Ármótasel

Á Ármótaseli voru frumbyggjar Jón (f. 5. júlí 1816) Guðlaugsson, bónda í Mjóadal í Bárðardal og víðar, Pálssonar, og Sigríður (f. 15. ágúst 1823) Jónsdóttir bónda á Ljótsstöðum í Fnjóskadal Jónssonar. Guðlaugur faðir Jóns var bróðir Þórðar á Kjarna í Eyjafirði. þau Jón og Sigríður höfðu flutzt að norðan eftir í húsmennskuábúð að Víðihólum. Þaðan fluttust þau á nýbýli sitt á Ármótaseli í Gilsársveitinni. Bóndi var þá á Arnórsstöðum Benedikt Gunnarsson, bróðir séra Sigurðar á Hallormsstað.

Hvort Sigríður kona Jóns hefur dáið eða þau fengið skilnað verður ekki ráðið af prestsþjónustubókum, en eftir fimm ár er hann einn á vist í Hneflaseli og tveim árum síðar kvænist hann aftur á Víðihólum (14. apríl 1862) Steinunni (f. 1830) Símonardóttur, bónda í Hvammi í Lóni Halldórssonar. Nokkru síðar fluttist þau austur á Hérað, en koma síðar fram í byggðarsögu Heiðarinnar.


10. Fagrakinn

old farmFagrakinn var byggð úr Möðrudalslandi, eftir því sem þá var talið. Landnemar þar voru Jón (f. 1807) Ólafsson ættaður af Völlum á Fljótsdalshéraði, og uppvaxinn þar til fermingaraldurs og Guðríður (f. 1799) Vigfúsdóttir ættuð úr Stöðvarfirði. Þau höfðu verið á vistum á ýmsum stöðum á Héraði þar til að þau giftust í Kirkjubæjarsókn árið 1843 og fengu árið eftir húsmennskuábúð á Surtsstöðum í Jökulsárhlíð. Þaðan fluttust þau 1845 á vist að Arnórsstöðum á Jökuldal og þaðan síðar að Möðrudal. Árið 1855 eru þau orðin ábúendur og frumbyggjar í Fögrukinn. Jón bar beinin á nýbýli sínu 18. júní 1862. Guðríður bjó þar nokkur ár eftir það og hafði sambýlismenn.


Jónas 11. Grunnavatn

Grunnavatn var annað býlið, sem byggðist í Brúarlandi. Landnemar þar voru Jónas (f. 12. nóvember 1825) Bergsson (Peninga-Bergs) Halldórssonar, ættaður úr Eiðaþinghá og Arndís (f. 1821) Magnúsdóttir ættuð úr sömu sveit. Þau giftust á Sænautaseli um miðsumar (28. júlí) árið áður en þau reistu nýbýlið og höfðu þar þá húsmennskuábúð.

Jónas og Arndís bjuggu á Grunnavatni í samfleytt tólf ár og áttu margt barna. Árið 1865 fluttu þau búferlum að Rjúpnafelli í Vopnafirði og þaðan síðar að Leifsstöðum í sömu sveit. Þau fluttist til Vesturheims 1880 með börn sín.


12. Hlíðarendi

Á Hlíðarenda voru frumbyggjar Jón (f. 17. desember 1817) Stefánsson og Guðrún Lára (f. 22. september 1827) Þórðardóttir. Jón var sonur Stefáns bónda á Eyvindará og síðar á Bergi í Vallahreppi, Jónssonar, en Guðrún Lára dóttir Katrínar Þorleifsdóttur, konu Jóns Sölvasonar á Háreksstöðum og Þórðar bónda á Staffelli Guðmundssonar, fædd á Ási í Fellum áður en foreldrar hennar, hvort um sig, stofnuðu hjúskap.

Þau Jón og Guðrún Lára giftust á Eiðum 10. október 1845. Næsta vor fluttust þau í Háreksstaði og munu hafa verið þar og í grenndinni þar til er þau byggðu sér nýbýlið á Hlíðarenda, líklega rétt eftir 1850. Þar bjuggu þau fram til 1860 og munu þá hafa flutt niður á Jökuldal.

Enn fimm árum síðar (1860) höfðu bætzt við tvö býli í Suður-heiðinni, Háls og Heiðarsel.


13. Háls

Á Hálsi í Eiríksstaðaheiðinni voru frumbyggjar 1859 Magnús (b. 27. júlí 1826) Jónsson bónda í Mjóanesi í Skógum, Ormssonar og Aðalbjörg (b. 28. ágúst 1822) Jóhannesdóttir bónda í Fjallseli, hálf-bróður Jóns (yngra) í Möðrudal. Þau höfðu árið 1854 verið saman á vist á Eiríksstöðum og gifzt þar um haustið (5. október). Vorið eftir fengu þau húsmennskuábúð á Víðihólum. Þar bjuggu þau til 1859 en reistu sér þá nýbýlið á Hálsi. Ekki bjuggu þau þar þó nema eitt ár og fluttust þá að Sleðbrjót í Jökulsárhlíð. Magnús dó stuttu síðar en Aðalbjörg lifði hann lengi. Dóttursonur þeirra er Jón læknir Nikulásson í Reykjavík.


14. Heiðarsel

Samtímis landnáminu á Hálsi byggðist upp býlið Heiðarsel. Frumbyggjar þar voru Jón (f. 4. nóvember 1824) Þorsteinsson, bónda á Brú, Einarssonar og Kristín (f. 6. febrúar 1823) Jónsdóttir, bónda á Aðalbóli, Péturssonar á Hákonarstöðum. Þau höfðu gifzt við sóknarkirkju brúðurinnar að Valþjófsstað 12. september 1846 og búið í sambýli á Brú þar til byggt var þetta heiðarbýli í landi jarðarinnar. Hefur ástæðan eflaust aftur verið sú, að ærið setin var heimajörðin. Á nýbýli sínu bjuggu þau til ársins 1863 og fluttu þau búferlum að Ormarsstöðum í Fellum. Sonur þeirra var Jóhann Frímann, síðar tóvinnustjóri á Ormarsstöðum.

Þau tvö býlin í Heiðinni, sem síðast byggðust, voru Hólmavatn í Skjöldólfsstaðaheiðinni og Lindasel í Arnórstaðaheiðinni. Var hvorugt þeirra í ábúð nema eitt ár, enda þótt búið væri að kosta til bæjargerðar. Þetta munu því hafa þótt kostarýrustu býlin, þótt ekki verði það beinlínis ráðið af staðháttunum.


15. Hólmavatn

Hólmavatn, eina býlið í Norðausturheiðinni byggði upp árið 1861 Jóhannes (f. 15. janúar 1820) Friðriksson, bónda á Fossi, Árnasonar og Kristbjörg (f. 1822) Guðlaugsdóttir, systir Jóns í Ármótaseli. Hún fluttist að norðan á vist að Möðrudal og réðst þaðan ráðskona til Jóhannessar. Þau giftust á Fossi 30. október 1850 og bjuggu þar fyrst. Þröngsetin mun heimajörðin hafa þótt og þess vegna verið ráðin nýbýlisstofnunin. Ekki hafa þau samt unað vistinni á nýbýlinu, því að strax næsta ár fluttust þau að Hraunfellsseli, innsta býli í Hraunfellsdal, sem þá hafði verið í ábúð nokkur ár. Þar undu þau ekki heldur og byggðu sér aftur nýbýli á Tunguseli í Steinvarartungunni, en bjuggu þar aðeins í þrjú ár. Þar fórst sonur þeirra Friðrik í snjóflóði í Tunguárgilinu. Fluttust þau þaðan í húsmennskuábúð að Teigi í Vopnafirði og þaðan aftur eftir ár að Þorbrandsstöðum. þar dó Jóhannes 4. ágúst 1869. - Sonur þeirra var J. Baldvin hreppstjóri í Stakkahlíð.


16. Lindasel

Lindasel var síðasta nýbýlið, sem reist var í Jökuldalsheiðinni. Það var árið 1862. Það gjörðu Guðmundur (f. 6. marz 1840) Hallgrímsson, bónda á Skörðum í Reykjahverfi og Lovísa Dorotea (f. 26. marz 1822) Jörgensdóttir, læknis Kjerulf á Brekku. Guðmundur hafði flutzt austur með Sigurgeiri frá Reykjahlíð Jónssyni, þegar hann árið 1852 fluttist að Galtastöðum í Tungu, og hjá honum ólst hann upp; mun hann hafa verið skyldur Ólöfu konu Sigurgeirs.

Lovísa Dorotea missti föður sinn ung. Móðir hennar, Arnbjörg Bjarnadóttir, varð þá að fara frá Brekku, er nýr læknir (Beldring) kom þangað, og hafðist við á ýmsum stöðum og voru þær mæðgur ekki alltaf á sama stað. Innan tvítugsaldurs fór Lovísa Dorotea til náms suður til Reykjavíkur. Eftir að hún kom austur aftur var hún b&#250stýra tvö ár (1844-1846) hjá Einari ríka Einarssyni á Hrafnkelsstöðum. (Það var þá títt að kalla þá bændur svo, sem voru öðrum fremur bjargálnamenn.) Nokkrum árum síðar fór hún til Kaupmannahafnar til hannyrðanáms og kom þaðan með fyrstu prjónavélina, sem fluttist til Austurlands. Eftir komuna þaðan var hún á ýmsum stöðum, þar til er hún árið 1861 var hjá móður sinni, sem þá var í húsmennskuvist hjá Kristjáni, syni sínum af fyrra hjónabandi, Sigurðssyni á Fossvöllum. Þar giftust þau Lovísa Dorotea og Guðmundur um haustið (26. september) og næsta vor reistu þau sér nýbýli á Lindaseli. Á Lindaseli fæddist Ólöf Dorotea dóttir þeirra, 4. ágúst 1862, en 17. febrúar árið eftir dó móðir hennar. Eftir lát konu sinnar var Guðmundar laus við og á ýmsum stöðum. Meðal annars var hann sumarið 1867 í þjónustu amerískra hvalveiðimanna á Vestdalseyri við Seyðisfjörð. Seinna fór hann í siglingar.

Ólöf Dorotea dóttir þeirra fór þegar eftir lát móður sinnar í fóstur til Arnbjargar ömmu sinnar, sem þá var flutt í húsmennskuábúð að Brú. Með henni fylgdist hún síðar til Jóhönnu móðursystur sinnar og manns hennar Sigfúsar Stefánssonar og ólst upp hjá þeim.

Ólöf Dorotea giftist Páli Guðmundssyni bónda í Firði í Seyðisfirði. Þau fóru til Vesturheims.Eftirspjall

Lokið er hér með að segja frá landnámsþætti byggðar Jökuldalsheiðarinnar. Höfuðástæðan til landnámsins er búfestuskortur. Byggðin, sem fyrir var, var fullsetin. Áræði og traust til framtíðarinnar þurfti samt til, að flytja staðfestu sína, þótt þröng væru skilyrðin, úr byggðum sveitum upp á reginheiði. Mest hefur á það reynt um fyrstu landnemana, áður en reynsla var fengin um, að afkomuskilyrðin voru bjargleg, a. m. k. til jafns við eða betur, en á borð við húsmennskuábúð í buggðum sveitum. Allvíða og langt að voru landnemarnir komnir, en seztir voru þeir námu byggð í heiðinni.

Sem sjá má, varð ærið mislöng búseta landnemanna á nýbýlum sínum. Sumir yfirgáfu þau eftir stutta búsetu, enda voru þau ekki stofnuð sem óðul; sumir bjuggu á þeim til æviloka og niðjar samhliða eða eftir þá; misjafnlega löng ævi var þeim sköpuð, enda misaldra þegar þeir hófu heiðarbyggð sína. Fleiri ástæður komu einnig til. Önnur búfesturskilyrði bárust að höndum, sem álitlegri þóttu.

Segja má að landnámstíminn hafi verið aðeins u. þ. b. hálfur annar áratugut og að býlafjöldan sé lítt að telja nema 13 eða 14, því að þau býlin (Háls, Hólmavatn og Lindasel), sem voru í ábúð í fá eða aðeins eitt á, sé lítt að telja. Þó tekur ábúðin á þeim, eins og margra hinna, til merkra manna.

Leitast hefur verið við, að segja svo deili á frumbyggjum Jökuldalsheiðarinnar, að afkomendur þeirra gætu fengið þráðí hendur til að rekja og gætu gjört sér hugmynd um ævikjör og lífsviðhorf ekki löngu liðinna forfeðra og fornmæðra sinna, er töldu sér þann kost vænstan, að skapa sér búfestu og fjölskyldulíf við óráðin og tvísýn kjör og kosti uppi á hálendi Íslands.

Engar sagnir eða rök hníga samt til þess, að landnemarnir í Jökuldalsheiðinni, né síðari búendur, hafi átt við neitt sérstakt harðræði að búa, eða ströng kjör, t. d. til jafns við það harðræði og þrautir, sem landnemarnir á Nýja-Íslandi áttu við að stríða og búa, bæði þeir sem úr Heiðinni fluttu og aðrir, á fyrstu landnámsárunum þar.


Ef að þú vilt fá nánari upplýsingar um Jökuldalsbyggðina eða um tímabilið 1870-1914 hafa samband á:  Vesturfarinn

Fara til baka á "Heim", eða halda áfram að skoða:
  Heim  
Vesturfaramyndasafn Ísland á 19 öld Vesturfarar
Minnesotabyggð Byggðarskráning Bréf frá Dagverðagerði