Vesturfarinn   -     


(Heimild: Íslandssaga A til Ö, Söguatlas III, Nýja Ísland, Vesturfaraskrá, Veður á Íslandi í 100 ár.)


Ísland á 19 öldOft er bent á slæmt veðurfar og náttúruhamfarir sem meginástæður þess að fólk tók sig upp og flutti vestur um haf. Eitthvað vantar upp á að þessi kenning þoli nána skoðun þó óneitanlega séu þessir þættir áhrifavaldar. Þó skila þessi áhrif sér af eðlilegum ástæðum ekki samstundis því talsverðan tíma tekur að bregðast við og ganga frá sínum málum eftir að ákvörðun um vesturför er tekin. Það þarf að ráðstafa jarðnæði, bústofni og öðrum eigum og þá er ekki á vísan að róa með að komast burtu þegar hugurinn girnist því hafís gat hamlað siglingum. Svo er að gæta þess að harðæri og aðrar hremmingar komu sjaldnast jafnt niður á öllu landinu. Gott dæmi um áhrif náttúruhamfara á vesturferðir er Öskjugosið 1875. Það ásamt eindæma hörðum vetri árið áður, 1874, virðist skila sér í hreinni sprengingu árið 1876 en þá yfirgefa 1.190 ættjörðina og hverfa vestur en fjöldinn var 59 1875 og 391 árið 1874.

Þá hafði áróður umboðsmanna Kanadastjórnar sitt að segja. Svokallaðir Vesturfara agentar gengu ljósum logum og útmáluðu fyrir fólki sæluna handan hafsins. Staða almennings á Íslandi var á þessum árum ekki beint glæsileg. Svo virtist að landið væri þess vanmegnugt að framfleyta fleiri en 50.000 íbúum. Eftir hörmungar 18. aldar náði íbúafjöldinn ekki þeirri tölu fyrr en milli 1820 og 1830.

Vel heppnuð bólusetning gegn bólusótt ásamt aukinni brjóstagjöf ungbarna, bættri menntun ljósmæðra og tilkoma lækna þó fáir væru stuðlaði að lækkaðri dánartíðni barna. Þrátt fyrir allt og allt er ekki talið að fólk hafi fallið úr hor á Íslandi eftir 1820 þó einhverjir yrðu þunnir á vangann á útmánuðum og einstaka barnkind kæmist yfir í sæluríkið með fyrra fallinu vegna lítils og ófullnægjandi matar.

Um og upp úr 1860 fer að bera á skorti á jarðnæði; landið ber ekki fleiri bændur með þeim búskaparháttum sem þá tíðkast. Landsmenn eru orðnir rúmlega 65.000 og hvergi örlar enn á þéttbýli til að taka á móti fyrirsjáanlegri fjölgum.

Vistabandið, sem skikkaði búlaust fólk til að ráða sig hjá bændum til ársins, var að vísu orðið umdeilt þegar kom fram yfir 1870 en hélt þó enn um sinn þrátt fyrir smávægilega linun 1863 og í raun munu þessi lög, sem eiga uppruna sinn í Grágás frá 10. öld, enn vera í gildi með þeim breytingum sem gerðar voru á þeim árið 1907. Jarðnæðislausu fólki var nánast ókleift að stofna fjölskyldu og ekkert blasti við annað en vinnumennska eða hokur í þurrabúð eða húsmennsku. Var það furða þó fólk legði eyrun við þegar boðið var upp á eitthvað nýtt?

Síðari hluti 19. aldar var frekar rysjóttur hvað tíðarfarið varðar. Harðindini stóðu með stuttum, mislöngum, hléum fram yfir aldamót og hófust árið 1859. Sérstaklega sló í harðbakkann 1865 og 1866 má teljast með verstu árum aldarinnar. 1867 til 1869 voru frekar erfið með tíðum harðindum og grasbresti.


Ef þú vilt meira upplýsingar um vesturfaraára 1870-1914, hafa samband við okkur: Vesturfarinn

Fara til baka á "Heim", eða halda áfram að skoða:
  Heim  
Vesturfaramyndasafn Jökuldalsheiðin og byggðin þar Vesturfarar
Minnesotabyggð Byggðarskráning Bréf frá Dagverðagerði